„Eftir sem áður væru íslenskir neytendur að borga hæstu iðgjöld bílatrygginga á Norðurlöndunum,“ segir í tilkynningu frá FÍB.
Útreikningarnir miðast við 20 prósent lækkun iðgjaldanna, sem forsvarsmenn FÍB segja hóflega lækkun í ljósi þess að iðgjöldin séu 50 til 100 prósent hærri hér en á hinum Norðurlöndunum.
Eigendur ökutækja hafi greitt 37 milljarða króna í iðgjöld bifreiðatrygginga árið 2020. Fólksbílar séu 87 prósent skráðra ökutækja og reikningurinn lendi því að megninu til á heimilunum.
„FÍB hefur um árabil gagnrýnt fákeppni milli tryggingafélaganna og mikla sjóðasöfnun með ofteknum iðgjöldum. Þá hefur FÍB nýlega bent á að þrátt fyrir mikla fækkun umferðarslysa undanfarin ár, þá hafa iðgjöld bílatrygginga hækkað jafnt og þétt allan tímann. Það sem af er þessu ári hafa þau hækkað um 6% og samtals um 44% á undanförnum fimm árum,“ segir í tilkynningunni.
„Ofteknu iðgjöldin leggja trygggingafélögin í bótasjóði sem þau ávaxta í eigin þágu. Um síðustu áramót námu bótasjóðir vegna allra bílatrygginga 55 milljörðum króna. Ekki er lengur þörf fyrir þessa miklu sjóðasöfnun til að mæta tjónsáhættu. Langt er síðan Evrópusambandið breytti fyrirkomulagi reikningsskila tryggingafélaga með svokallaðri Solvency 2 reglugerð. Með þeirri breytingum er eigin fé tryggingafélaganna ætlað að mæta áhættu vegna tryggingastarfseminnar. Fyrir liggur að eiginfjárstaða þeirra er firnasterk og þau hafa því borð fyrir báru til að lækka iðgjöldin með því að hætta þessari miklu sjóðasöfnun.“