AP-fréttastofan segir að sjö flugferðir með Haítíbúa frá Texas til Haítí séu á dagskránni á miðvikudag. Fólkinu var ekki gefinn kostur á að sækja um hæli í Bandaríkjunum.
Mikill fjöldi Haítíbúa hefur flúið eyríkið eftir jarðskjálftann mannskæða árið 2010. Fyrr á þessu ári var forseti landsins myrtur og í ágúst fórust þúsundir til viðbótar í öðrum stórum jarðskjálfta.
Ákvörðun ríkisstjórnar Joes Biden um að vísa fólkinu til Haítí kemur þrátt fyrir að aðstæður í landinu hafi aðeins vernsað frá því í vor en þá veitti stjórnin tugum þúsunda Haítíbúa sem eru ólöglega í Bandaríkjunum tímabundna vernd gegn brottvísun í ljósi aðstæðna þar.
Washington Post segir að glæpagengi stjórni nú hverfum og mikilvægum samgönguæðum á Haítí, brenni íbúðarhús, nauðgi, ræni og drepi. Þúsundir Haítíbúa hafi flúið ofbeldi og óstjórnina.
Bandaríski embættismenn halda því fram að nauðsynlegt sé að vísa fólkinu úr landi til þess að koma í veg fyrir að bylgja örvæntingarfulls farandfólks reyni að komast yfir landamærin að Texas frá Mexíkó.
Alejandro Mayorkas, heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, réttlætti ákvörðunina um brottvísun fólks til Haítí með því að jarðskjálftinn í ágúst hafi aðeins valdið tjóni á landfræðilega afmörkuðu svæði. Aðstæður leyfðu að fólk væri sent þangað frá Bandaríkjunum.
Til stendur að vísa enn fleira fólk frá landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó á næstunni. Um tólf þúsund manns hafa safnast saman undir brú í Del Río í Texas eftir að hafa komist yfir landamærin frá Ciudad Acuña í Mexíkó.
Drone footage shows more than 12,000 migrants, mostly Haitian, at the makeshift camp in Del Rio, Texas https://t.co/FB2yqCvbd2 pic.twitter.com/eq7EfZpGfn
— Reuters (@Reuters) September 20, 2021
AP segir að brottflutningurinn á flótta- og farandfólki nú gæti orðið sá umfangsmesti og sneggsti í fleiri áratugi í Bandaríkjunum.