Handbolti

Haukar spila báða við Miðjarðarhaf og Selfoss í Tékklandi

Sindri Sverrisson skrifar
Darri Aronsson og félagar í Haukum eru á leið til Kýpur.
Darri Aronsson og félagar í Haukum eru á leið til Kýpur. vísir/Hulda Margrét

Tvö af íslensku liðunum þremur sem spila í Evrópubikarkeppninni í handbolta karla hafa nú selt frá sér heimaleik og spila því báða leiki á útivelli í komandi einvígum.

Selfoss leikur eitt íslenskra liða í 1. umferð keppninnar og hafa Selfyssingar gert samkomulag við tékkneska liðið Koprivnice um að báðir leikirnir fari fram í Tékklandi. Selfyssingar halda utan í næstu viku og spila helgina 18.-19. september.

Haukar greindu svo frá því í dag að þeir muni spila báða leiki sína við Parnassos Strovolou á Kýpur, þegar þeir spila í 2. umferð. Leikið verður dagana 16.-17. október og fara Haukar utan 14. október en koma heim fimm dögum síðar.

Ekki hefur annað heyrst en að FH-ingar spili hins vegar heima og að heiman í einvígi sínu við Minsk frá Hvíta-Rússlandi. Fyrri leikurinn er í Hafnarfirði 16. október og sá seinni ytra viku síðar.

Íslandsmeistarar Vals eru komnir í 2. umferð Evrópudeildarinnar og mæta þar Bjarka Má Elíssyni og félögum í Lemgo. Fyrri leikurinn er á Hlíðarenda 21. september en sá seinni í Lemgo viku síðar.

Íslandsmeistarar KA/Þórs í kvennaflokki leika svo báða leiki sína við Istogu í Kósovó, dagana 16.-17. október, í 2. umferð Evrópubikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×