Að sögn Crowberry Capital mun sjóðurinn fjárfesta í norrænum tækni sprotafyrirtækjum á fyrstu stigum fjármögnunar og vera með starfsstöðvar í Reykjavík og Kaupmannahöfn.
Mun Crowberry II meðal annars leggja áherslu á að fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem eru leidd af konum. Jenný Ruth Hrafnsdóttir, meðeigandi hjá Crowberry Capital, segir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna að stjórnendur sjóðsins sjái vannýtt tækifæri á Norðurlöndunum þar sem einungis lítill hluti fjármögnunar fari til kvenna.
Mikil tækifæri við uppbyggingu tæknifyrirtækja
Fram kemur í tilkynningu frá Crowberry Capital að Evrópski fjárfestingasjóðurinn (EIF) hafi leitt fjármögnun sjóðsins. Aðrir fjárfestar séu íslenskir lífeyrissjóðir og fagfjárfestar, þar á meðal Davíð Helgason, stofnandi Unity Technologies. Evrópski fjárfestingasjóðurinn er í eigu nokkurra evrópskra banka og er stærsti fagfjárfestir vísisjóða í Evrópu.
Crowberry II hefur tíu ára líftíma og verður tekið á móti frekari áskriftarloforðum fagfjárfesta á fyrsta starfsári, að sögn stofnenda.
„Aðkoma EIF er staðfesting á því að hér á landi eru mikil tækifæri við uppbyggingu tæknifyrirtækja um leið og að staðfesta að þau vinnubrögð sem hafa verið þróuð hér við fjárfestingar séu eins og best gerist í Evrópu. Þessi beina erlenda fjárfesting mun hafa mikil áhrif á uppbyggingu tæknifyrirtækja og sköpun þekkingarstarfa á Íslandi til næstu 10 ára,” segir í tilkynningu.