Borghildur Sigurðardóttir, varaformaður KSÍ, staðfesti í samtali við mbl.is fyrr í dag að stjórn KSÍ ræði hvort hún telji ástæðu til að segja af sér í ljósi viðburða síðustu daga.
Sjálf sagði Borghildur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að hún hafi íhugað að stíga til hliðar og raunar hafi allir sitjandi stjórnarmeðlimir boðið fram afsögn. Lausnin væri hins vegar ekki fólgin í því að stíga frá málinu og skilja sambandið eftir óstarfhæft.
Fréttastofa hefur ekki náð tali af Borghildi í kvöld. Valgeir Sigurðsson, stjórnarmaður KSÍ, vildi lítið tjá sig um stöðu mála þegar Vísir greip hann á miðjum fundi. Áfram sé fundað og ekki sjái ekki fyrir endann á fundaröð dagsins.
Valgeir segir að líklega sé von á frekari upplýsingum frá stjórninni síðar í kvöld. Hann vildi ekki staðfesta hvort stjórnin íhugaði að stíga til hliðar eftir vendingar síðustu daga.
„Ég ætla bara að leyfa þessum fundi að klárast áður en ég tjái mig,“ segir hann í samtali við Vísi.
Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ í gær en kallað hefur verið eftir því að breytingar verði sömuleiðis gerðar á stjórn sambandsins til að endurheimta traust knattspyrnuhreyfingarinnar og almennings til KSÍ.
Stjórn Íslensks toppfótbolta (ÍTF), samtaka félaga í efstu deildum, krefst þess til að mynda að stjórn KSÍ og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri pakki saman og fari úr Laugardalnum.

Nærri öll félög í landinu krefjist sterkari aðgerða
„Þetta er ekki bara ÍTF, þetta eru nánast öll félögin í landinu sem hafa krafist þess að gripið verði til sterkari aðgerða og við eigum ekki von á öðru nema að stjórnin verði við því,“ sagði Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Íslensks toppfótbolta, í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld.
Þá geri samtökin kröfu um að kallað verði til aukaþings hjá KSÍ.
„Þá mun fólk bjóða sig fram og endurnýja umboð sitt. Þá getum við hafið þetta umbótaferli með hreina stjórn.“
Hann segir þá ljóst að ráðast þurfi í miklar umbætur innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Það sé ekki bundið við KSÍ.
„Ég held að það segi sig sjálft að það verða allir verkferlar að uppfærast og félögin þar á meðal, að líta í eigin barm. Þetta er augljóslega mál sem snertir okkur öll og það verða allir að axla ábyrgð í þessum málum og líta inn á við.“