Kjarasamningurinn gildir til 1. október 2023 en haldnir hafa verið átján fundir í deilunni hjá ríkissáttasemjara. Stóð síðasti samningafundurinn í 27 klukkustundir með fundarhléi frá klukkan 4 til 11 í morgun.
Frá þessu er greint á vef ríkissáttasemjara en flugumferðarstjórar boðuðu til verkfalls síðasta þriðjudag eftir árangurslausan sáttafund. Mikill meirihluti félagsmanna innan Félags íslenskra flugumferðarstjóra studdu verkfallsboðunina og ætluðu þeir að leggja niður störf næsta þriðjudag og föstudag.
Fulltrúar ferðaþjónustunnar höfðu lýst yfir áhyggjum af stöðunni en vinnustöðvunin hefði sett millilandaflug á Keflavíkurflugvelli úr skorðum. Birgir Jónsson, forstjóri Play, sagði á dögunum að verkföll væru það síðasta sem ferðaþjónustan og flugiðnaður landsins þyrfti ofan í glímuna við áhrif heimsfaraldurs. Til stóð að efna til fyrri vinnustöðvunarinnar á milli klukkan fimm og tíu á þriðjudagsmorgun og hefði hún fyrst og fremst haft áhrif á morgunflug Icelandair frá Bandaríkjunum.
Boðuðu síðast til vinnustöðvunar árið 2019
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á þriðjudag að ekki væri talið tilefni til að grípa inn í kjaradeiluna. Það væri þó alvarlegt hversu oft verkfallsréttinum væri beitt á Íslandi miðað við það sem tíðkaðist víða annars staðar.
Félag íslenskra flugumferðarstjóra boðaði síðast til vinnustöðvunar árið 2019 en náðu samningum áður en til hennar kom. Þá var samið um sautján þúsund króna hækkun 1. janúar 2020 og átján þúsund króna hækkun 1. apríl 2020. Að aukið var samið um að félagið myndi skuldbinda sig til að grípa ekki til vinnustöðvana í skiptum fyrir sérstakt álag sem nam 4,5 prósentum af launum.
Kjarasamningurinn féll úr gildi um síðustu áramót og boðað var til vinnustöðvunar eftir um sex mánaða kjaraviðræður. Arnar Hjálmsson, formaður félagsins, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í vikunni að viðræðurnar hafi strandað á launaprósentum og ákvæðum um lengd samningstíma.