Frá því að leghálsskimanirnar voru fluttar frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar um áramótin hafa konur þurft að bíða fjóra til fimm mánuði eftir niðurstöðum.
Sigríður segir það hins vegar sína skoðun að umræða um skimanirnar síðustu misseri hafi snúist meira um hræðsluáróður en fræðslu og að mikilvægt sé að konur viti að hætta sé ekki yfirvofandi þrátt fyrir biðtímann.
„Við erum ekki að leita að krabbameini. Tilgangur skimunarinnar er að leita að forstigum leghálskrabbameins. Auðvitað viljum við að konur fái svör sín sem allra fyrst og við vinnum í þá átt en teljum það ekki stórskaða að bíða,“ segir hún.
Ágúst Ingi Ágústsson, sem tekið hefur við af Kristjáni Oddssyni sem verkefnastjóri hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana, segir að gengið sé útfrá því að í langflestum tilvikum sé óhætt að bíða eftir svari þar sem „hættan sé ekki yfirvofandi“.
„Ég er ekki í neinum vafa um að Heilsugæslan hafi alla burði til að standa jafn vel að þessu og Krabbameinsfélagið,“ hefur Fréttablaðið eftir Ágústi.