„Ég varð nú bara var við einhver læti úti í gær um hálf eitt leytið og lít út um gluggann og sé að þarna eru unglingsstrákar að ganga niður Nýbýlaveginn,“ segir Kristinn, sem telur drengina hafa verið um sjö talsins.
„Ég pældi ekkert mikið í því og leit aðeins frá en svo heyri ég að það er skarkali í gangi og heyri skell og þá lít ég út og sé að það er bíll að fara framhjá og köttur liggur sprikklandi í götunni,“ segir hann.
Kristinn tekur fram að hann geti ekki verið 100 prósent viss um hvað gerðist þar sem hann sá ekki drengina kasta kettinum fyrir bílinn en af öllu að dæma, og ekki síst því að hann heyrði strákana tala um að hafa kastað einhverju fyrir bifreiðina, hafi það verið það sem gerðist.
Kötturinn lifði en virtist þó hafa borið skaða af.
„Hann stekkur upp og yfir grindverk og svo sé ég að bílstjórinn snýr við; ætlar að líklega að reyna að ná tali af strákunum eða eitthvað. Þá tvístrast hópurinn og þeir hlaupa allir í burtu,“ segir Kristinn.
Kona Kristins hringdi á lögregluna og lét vita og þá greindi Kristinn frá atvikinu á Facebook, meðal annars til að láta vita ef einhver í hópnum hefði fengið köttinn sinn særðan heim. Hann virtist vera ljós á litinn.