Að sögn Gæslunnar var fólkið orðið kalt og hrakið þegar áhöfnin kom á staðinn laust fyrir klukkan fimm. Hópurinn var á leið frá Akureyri til Reykjavíkur um Sprengisand og Kjalveg á buggý bílum og var fluttur til Reykjavíkur með TF-EIR.
Í hádeginu í gær var þyrlusveitin kölluð út til að annast sjúkraflug frá Vestmannaeyjum. Sjúkraflugvél gat ekki lent á Heimaey vegna flugbrautarframkvæmda og því var TF-EIR send til Eyja. Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli þar sem sjúkrabíll beið og flutti sjúklinginn á Landspítalann, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Slasaðist á Langahrygg
Laust eftir klukkan átta í gærkvöldi var þyrlusveitin kölluð út þegar göngumaður slasaðist í Móskarðshnúkum í miklum bratta og þurfti að komast undir læknishendur. Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg huguðu að manninum þar til þyrla Gæslunnar kom á staðinn og flutti til Reykjavíkur.
Á ellefta tímanum í gær var áhöfn þyrlunnar kölluð út í fjórða sinn vegna konu sem slasaðist á gönguleiðinni á Langahrygg og ljóst að erfitt yrði að flytja hana landleiðina. Að sögn Gæslunnar huguðu björgunarsveitarmenn að konunni þar til áhöfn TF-EIR kom á staðinn. Hún var hífð um borð í þyrluna og flutt á Landspítalann í Fossvogi.