Þeir Oddur Björnsson og Sverrir Guðjónsson eru búsettir sinn í hvorum enda Grjótaþorpsins. Þeim hugnast ekki garðhýsi sem komið hefur verið fyrir á lóð eins elsta húss þorpsins, og telja borgina draga lappirnar í málinu. Vegna staðsetningar þurfa aðeins borgaryfirvöld að veita samþykki fyrir framkvæmdinni, þar sem aðliggjandi lóðir teljast til borgarlands. Því kemur ekki til kasta nágranna í málinu.
„Það kemur okkur bara spánskt fyrir sjónir. Hér má í húsum ekki lengur skipta um rúðu eða gluggapóst án þess að það fari fyrir þar til gerðar nefndir, þess vegna veltum við fyrir okkur hvort það sé þá ekki á móti að borgin verndi þá okkur, þegar kemur að því að borgin er umsagnaraðili í svona gjörningi,“ segir Oddur.

Fréttastofa náði tali af byggingarfulltrúa í Reykjavík sem segir hýsið innan leyfisskyldra marka hvað varðar stærð þess í fermetrum og hæð.
„Byggingarfulltrúi og þeir sem ráða þar verða að skoða þetta í svolítið víðu samhengi, og bera þetta saman við það sem er að gerast hérna í þorpinu. Hvernig húsin líta út,“ segir Sverrir.
Hann og Oddur telja hýsið ekki falla að umhverfi þorpsins og benda á að fjöldi ferðamanna leggi leið sína þar í gegn á degi hverjum og benda á að þeir komi til þess að sjá þorpið „í sínu besta ljósi.“