Sóttvarnalæknir hefur gefið út að óvíst sé hvort hann muni leggja til ákveðnar aðgerðir að þessu sinni en núverandi takmarkanir gilda til og með 13. ágúst að óbreyttu. Sóttvarnatakmarkanir stjórnvalda hafa fram að þessu byggt á tillögum sóttvarnalæknis og er útlit er fyrir að ákvörðun um næstu skref verði byggð á matskenndari forsendum en áður.
Í síðustu viku funduðu ráðherrar með sérfræðingum um stöðu faraldursins en síðustu daga hefur til að mynda verið leitað sjónarmiða hjá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, talsmönnum listafólks og forsvarsmönnum íþróttahreyfingarinnar.
Í þeim samtölum hefur meðal annars verið kallað eftir því að hlutabótaleiðin verði framlengd og hugað verði að því að halda atvinnulífinu og menningarstarfi gangandi.
Staðan alvarlegri og óútreiknanlegri
Velferðarnefnd Alþingis fundaði í dag en Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður nefndarinnar, fór fram á það í síðustu viku að nefndin kæmi saman í sumarleyfi þingmanna til að fara yfir ástand faraldursins.
Helga Vala sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að eftir fundinn sé henni ljóst að staðan sé flóknari en hún gerði ráð fyrir.
„Staðan er alvarlegri, staðan á Landspítalanum er alvarlegri, og þetta delta-afbrigði er óútreiknanlegra en við héldum.“
Hvetur ríkisstjórnina til að hlusta á Þórólf
Nú er ljóst að ákvörðun um næstu aðgerðir verður kannski pólitískari en áður. Hvernig leggst það í þig og hvernig finnst þér að eigi að bregðast við þessari stöðu?
„Okkur hefur gengið best þegar við höfum fylgt ráðleggingum Þórólfs sóttvarnalæknis og ég held að stjórnvöld eigi að horfa þangað þegar þau leita ráða.
Ég held að þegar við tölum um að lifa með veirunni þá þurfum við að vega og meta hvernig það er gert: Þannig að krakkarnir okkar komast ekki í skóla og geti ekki lifað eðlilegu lífi eða heilbrigðiskerfið okkar geti ekki sinnt nauðsynlegum aðgerðum? Ég held að við verðum að láta almannahag ráða hér,“ segir Helga Vala.
Takmarkanir séu núna í algjöru lágmarki og hægt að verja fólk betur með því að fylgja ráðleggingum sóttvarnalæknis.
„Með því að skima á landamærunum, fara í aukna grímuskyldu, tveggja metra regluna en þó þannig að skólastarf geti átt sér stað og svo eru auðvitað þessi hraðpróf sem er verið að nota víða erlendis. Ég held að það sé eitthvað sem geti hjálpað til bæði í heilbrigðiskerfinu og í skólastarfinu,“ segir Helga Vala.