Breytingarnar voru tilkynntar á vef Heilbrigðisráðuneytisins nú í kvöld.
Í reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar segir að fjölda- og nálágæðartakmarkanir nái einnig til barna sem eru fædd árið 2016 og fyrr. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að til að taka af öll tvímæli hafi verið ákveðið að þær takmarkanir nái einnig til fimmtu greinar reglugerðarinnar.
Sú grein fjallar um takmarkanir á starfsemi vegna sérstakrar smithættu og snýr að veitingastöðum, íþróttaviðburðum, skemmtunum og ýmsu öðru.
Ákvæði um loftræstingu fjarlægt
Seinni breytingin felur í sér að ákvæði um loftræstingu hefur verið tekið út úr reglugerðinni. Ákvæði sneri að því að fólk ætti að vera með grímur þar sem ekki væri hægt að tryggja eins metra fjarlægð eða húsnæði væri illa loftræst.
Ákvæðið þótti óljóst og erfitt í framkvæmd og var því fjarlægt.
Í stað þess er það nú í höndum framkvæmdaaðila að leggja mat á hvort hægt sé að virða eins metra nálægðarmörkin í viðkomandi húsnæði. Annars þarf að vera með grímur.