„Þetta er það sem við höfum verið að tala um, við eigum von á því að fólk komi inn á spítalann og meðan þetta dreifist svona út þá eru óbólusettir í ákveðinni hættu, meiri hættu en aðrir má segja, og svo hinir sem hafa kannski ekki svarað bólusetningunni nægilega vel,“ segir Runólfur.
Hann veit ekki hvernig veikindi viðkomandi sjúklings lýsa sér eða nánari tildrög á honum, utan þess að hann er ekki aldraður, yngri en sextugur.
„Þessi kom til skoðunar en svo var ákveðið að leggja viðkomandi inn, því það þótti öruggara. Þannig að það verða þá tveir inniliggjandi frá og með deginum í dag,“ segir Runólfur.
„Næstu dagar verða svona spái ég. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta þróast þegar fjöldinn er svona mikill.“
Samkvæmt Covid.is eru 287 í einangrun með virkt smit á landinu. Um það bil fimm eru undir nánara eftirliti göngudeildar sem gætu þurft á innlögn að halda vegna veikinda. Einn var lagður inn í gær með lungnabólgu, fullbólusettur.