Ekki er talið að gestir hafi verið útsettir fyrir smiti og því hafa viðskiptavinir ekki verið sendir í skimun eða sóttkví. Þetta segir Jakob Jakobsson, eigandi og framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar, í samtali við Vísi en Mbl.is greindi fyrst frá málinu. Von er á niðurstöðum úr skimun starfsmanna síðar í dag.

Jakob segir að veitingastaðurinn verði áfram opinn og að smitið hafi lítil áhrif á starfsemina. Ekki hefur borið á einkennum hjá starfsmönnum.
„Aðalmálið er bara að fólk er bólusett svo þetta virðist ekki hafa nein teljandi áhrif en auðvitað er allur varinn góður og við fylgjum tilmælum rakningateymisins í hvívetna.“
Ekki hefur tekist að rekja smitið en starfsmaðurinn hefur ekki verið erlendis, að sögn Jakobs.
Sjö einstaklingar greindust með Covid-19 innanlands í gær og tíu á miðvikudag. Voru þeir allir bólusettir.