Rakel Sara, sem er aðeins átján ára gömul, varð markahæsti leikmaður Íslandsmeistara KA/Þórs í úrslitakeppninni með 24 mörk í 5 leikjum þrátt fyrir að taka ekki eitt einasta víti í leikjum Akureyrarliðsins.
Rakel Sara nýtti 77 prósent skota sinna í úrslitakeppninni og skoraði einu marki meira en liðsfélagar sínir Aldís Ásta Heimisdóttir og Rut Jónsdóttir.
„Við erum búnar að vinna alveg gríðarlega mikið að þessu og þetta er ekki búið að vera auðvelt en þetta skilaði sér,“ sagði Rakel Sara Elvarsdóttir við Gaupa. En af hverju er hún orðin svona góð?
„Ég er bara búin að gera það sem maður gerir. Ég er búin að taka aukaæfingar og vinna að mínum markmiðum sem hafa skilað mér þangað sem ég er komin í dag. Ég mun auðvitað halda áfram núna og reyna að standa mig,“ sagði Rakel Sara en nú verður meiri pressa á henni á næstu leiktíð.
„Ég reyni að vera ekki að hugsa út fyrir boxið. Ég ætla að hugsa um sjálf mig fyrst og fremst og hvað ég ætla að gera. Það skilar mér alltaf þegar ég er ekkert að hugsa um hvað aðrir eru pæla,“ sagði Rakel Sara en það má sjá viðtal Gaupa við hana hér fyrir ofan.