Frá þessu greinir geimferðafyrirtækið Blue Origin, en þeir munu ferðast upp í geim í jómfrúarferð geimferjunnar New Shepard. Tilraunir hafa verið gerðar með New Shepard, sem tekur alls sex manns, frá árinu 2012.
Bezos segir frá því í myndbandi sem hann birtir á Instagram að hann hafi dreymt um það að ferðast upp í geim frá því að hann var fimm ára gamall.
„20. júlí mun ég leggja í þá ferð með bróður mínum. Stærsta ævintýrið, með besta vini mínum,“ segir Bezos í myndbandinu sem sjá má að neðan.
Alls hafa verið gerðar tólf tilraunaferðir með New Shepard og hefur flaugin náð rúmlega 100 kílómetra hæð. Í flauginni er að finna stóran glugga sem mun veita farþegum einstakt útsýni, auk þess að þeim verður gefið færi á að upplifa þyngdarleysi í einhverjar mínútur áður en flauginni er aftur snúið til jarðar.
Bezos skipar nú annað sætið á lista Forbes yfir ríkustu menn heims, en auðævi hans eru metin á 186 milljarða Bandaríkjadala.
Bezos hyggst láta af stöðu forstjóra Amazon snemma í næsta mánuði, skömmu fyrir áætlaða brottför.