Heilbrigðisráðherra flutti mánaðarlega skýrslu um stöðu bólusetninga og sóttvarnaráðstafana á Alþingi í dag. Skýrslurnar eru nú orðnar tíu og svör og ræður ráðherra yfir tvö hundruð talsins en segja má að þessi skýrsla hafi markað ákveðin tímamót í faraldrinum.
„Það er svo hátíðleg stund hér, þar sem ég vona að þetta sé síðasta skýrslan sem ég er að gefa Alþingi um þessi mál,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, á Alþingi í dag.
Enda er stefnt að þinglokum í næstu viku og kosningar á næsta leyti auk þess sem ráðherra er einungis skylt að flytja skýrslu þegar sóttvarnaraðgerðir eru í gildi.
„Nú þegar hafa um sextíu prósent fullorðinna fengið í það minnsta einn skammt af bóluefni og ef áætlanir ganga eftir má gera ráð fyrir því að yfir 90% hafi fengið fyrri skammt bóluefnis í síðari hluta þessa mánaðar.“
Samkvæmt afléttingaráætlun stjórnvalda er miðað við að 75% fullorðinna hafi fengið fyrri skammt bóluefnis til þess að hægt verði að afnema allar takmarkanir á samkomum innanlands. Samkvæmt framgangi bólusetninga ætti það að hægt síðar í mánuðinum en núgildandi reglur renna út eftir rúmar tvær vikur.

Aðspurð um bólusetningar til framtíðar sagði Svandís að Evrópusambandið væri búið að semja við Pfizer um bóluefni á næstu tveimur árum.
„Við erum tilbúin til að vera þátttakendur í því samstarfi. Við höfum þó ekki lokið skoðun á fleiri valkostum í þeim efnum. En við munum þurfa bóluefni áfram inn á árið 2022, það liggur fyrir. Það er til skoðunar að við þurfum viðbótar „boozt“ eins og það er kallað og mögulega munum við vilja bólusetja börn á aldrinum tólf til fimmtán ára. Þetta er allt saman til skoðunar.“