Í skýrslunni sem kom út í dag og heitir, Íslenskur vinnumarkaður 2021, kemur fram að þrátt fyrir að efnahagslegur samdráttur hafi reynst minni en óttast var í fyrstu skilji Covid- kreppan eftir sig djúp sár á vinnumarkaði. Þannig hafi byrðar samdráttarins dreifst á smærri og viðkvæmari hópa en í öðrum íslenskum kreppum.
Róbert Farestveit sviðstjóri stefnumótunar og greiningar hjá ASÍ segir einkum tvennt koma til.
„Annars vegar skammtímaáhrif sem birtast í verulegu tekjufalli atvinnuleitenda eða 37% tekjufalli og hins vegar langtímaáhrif á vinnumarkaði en þar eru ákveðin hættumerki. Ein hættan er að hér verði hærra atvinnuleysisstig eftir krísuna en fyrir og kannski meira en Íslendingar hafa átt að venjast,“ segir Róbert.

Hann segir ýmsar skýringar á því af hverju hætta sé á meira atvinnuleysi eftir faraldurinn en Íslendingar eigi að venjast.
„Þetta getur verið samspil ýmissa þátta. Þá af því hvaða atvinna verður til eftir krísu og hvaða hvaða mannauður er til staðar. Þannig að við hjá ASÍ leggjum til tillögur sem geta þá dregið úr þessu ójafnvægi t.d. með bættum úrræðum fyrir atvinnuleitendur, bættum menntunarúrræðum o.s.frv.,“ segir Róbert.
Í skýrslunni koma fram átta tillögur sem ASÍ leggur til að stjórnvöld grípi til.
Róbert segir brýnt að bregðast við.
„Við myndum alla vega vilja sjá stjórnvöld horfa til þessara tillagna nú þegar heildarendurskoðun á atvinnuleysistryggingarkerfinu stendur fyrir dyrum,“ segir hann.
Ólíklegt að atvinnulausir hafni vinnu
Fram hefur komið að ferðaþjónustunni sárvantar starfsfólk og þrátt fyrir mikið atvinnuleysi sé erfitt að ráða í allar stöður þar.
„Það tekjufall sem atvinnuleitendur hafa orðið fyrir bendir til þess að það sé mikill hvati til vinnu hjá atvinnuleitendum. þannig að ég myndi telja ólíklegt að þetta sé eitthvað stórt vandamál á vinnumarkaði þ.e. að fólk á atvinnuleysisskrá þiggi ekki þá vinnu sem því er boðið,“ segir Róbert.
