Erlent

Mannréttindaráð SÞ samþykkir að hefja rannsókn á átökunum á Gasa-svæðinu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Stúlkur leika sér við eyðilögð heimili sín í bænum Beit Hanoun.
Stúlkur leika sér við eyðilögð heimili sín í bænum Beit Hanoun. epa/Mohammed Saber

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt að hefja formlega rannsókn á ofbeldinu á Gasa-svæðinu á dögunum, þegar að minnsta kosti 242 létu lífið í loftárásum Ísraela og þrettán dóu í Ísrael eftir eldflaugaskothríð Hamas samtakanna.

Ráðið, sem skipað er fulltrúum 47 ríkja á hverjum tíma, samþykkti tillöguna með 24 atkvæðum gegn 9. Tillagan var lögð fram af hópi arabaríkja í ráðinu en Bandaríkjamenn lögðust gegn henni og segja rannsóknina ógn við friðarumleitanir á svæðinu. 

Tillagan gerir ráð fyrir því að rannsóknarnefndin verði varanleg og þannig að hægt verði að vísa til hennar ásökunum um mannréttindabrot í Ísrael, á vestubakkanum og á Gasa. 

Á fundi Mannréttindaráðsins í gær sagðist yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, Michelle Bachelet, vera mjög uggandi yfir mannfallinu á Gasa og sagði hún möguleika á því að loftárásir Ísraela feli í sér stríðsglæpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×