Skýrslan er unnin að fjórum óháðum sérfræðingum fyrir sjávarútvegsráðherra og spannar allan sjávarútveginn og hliðargreinar hans. Skýrsluhöfundar segja sjávarútveginn standa undir stöðugleika í íslenskum efnahagsmálum og skipta byggðir landsinis miklu máli. Samhliða honum hafi mikilvæg tækni, þjónustu og þróunarfyrirtæki vaxið og dafnað um allt land og skapað ný störf.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir skýrsluna sýna að sjávarútvegurinn standi sterkt og framtíðarmöguleikarnir séu miklir.
„Við sjáum í þessari samantekt að af gefnum þeim forsendum sem skýrslan dregur upp að sjávarútvegurinn ætti að geta aukið virði framleiðslu sinnar um hátt í þrjú hundruð milljarða á næstu tíu árum. Sem gæti lagt okkur það lið í að standa vörð um þau lífskjör sem íslendingar vilja búa við,“ segir Kristján Þór.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja hafa verið mun hærri en veiðigjöld á árunum 2013 til 2019. En Ísland sé líka eina ríki Evrópu þar sem sjávarútvegur skilar ríkinu meiri tekjum en ríkið leggur til hans.
Sjávarútvegsráðherra segir að seint muni skapast friður um fiskveiðistjórnunarkerfið þannig að allir verði fullsáttir. Skýrslan gefi hins vegar betra færi á að ræða þau mál á málefnalegum en hægt hafi verið.

„Hér fáum við hlutlæga og hlutlausa vísindamenn til að draga upp stöðuna í atvinnugreininni eins og hún er. Lýsa henni nákvæmlega. Þanig á þeim grunni geta stjórnmálamenn og aðrir rætt mögulegar væntingar og vilja sinn til breytinga á því sem fyrir liggur,“ segir Kristján Þór.
Höfundar skýrslunnar eru prófessorarnir Sveinn Agnarsson og Sigurjón Arason, Dr. Hörður G. Kristinsson og Dr. Gunnar Haraldsson. Sveinn var jafnframt ritstjóri skýrslunnar. Hann segir styrkleika sjávarútvegsins liggja í hvernig staðið sé að rannsóknum, nýtingu stofnanna, aflamarkskerfinu og frjálsri verðmyndun á innlendum fiskmörkuðum. Þá skipti samþætt sjávarútvegsfyrirtæki miklu máli þar sem veiðar, vinnsla, sala og markaðssetning fari saman.

„Svo er ekki síst þetta mikla samstarf á milli annars vegar sjávarútvegsfyrirtækja og hins vegar tækni og þróunarfyrirtækja. Hvorgur getur án hins verið. Þetta samstarf er mjög mikilvægt,“ segir Sveinn.
Það hafi komið á óvart hvað þessi þróun hafi verið ör og hvað þetta samstarf væri mikilvægt fyrir íslensk fyrirtæki. Nú væru um tvö þúsund og fimm hundruð störf hjá fyrirtækjum í hliðargreinum við sjávarútveginn.