Talið er að eldurinn logi á um það bil eins hektara svæði milli Kleppsvegar og Héðinsgötu. Tilkynnt var um eldinn klukkan 19:15 en óvissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir vegna hættu á gróðureldum í ljósi þurrka.
Uppfært klukkan 19:53: Slökkviliðið er langt komið með að slökkva eldinn.
„Hér er allt með kyrrum kjörum. Við náðum að loka þessu í sitthvorn endann og stýrðum þessu yfir að veginum og þá var allt í góðu,“ sagði Finnur Hilmarsson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í samtali við Vísi um klukkan átta.
Mikið hefur verið um gróðurelda undanfarna daga vegna þurrka. Lögregla og slökkvilið hafa víða aukið viðbúnað sinn og eftirlit vegna þessa. Óvissustig almannavarna er nú í gildi á svæði sem nær allt frá Eyjafjöllum í austri og vestur að Breiðafirði. Fyrr í dag loguðu gróðureldar í Grímsnesi, á Vatnsleysuströnd og við Hvaleyrarvatn.
„Því miður er þetta að gerast núna í þessari þurrkatíð og við hvetjum fólk til að fara varlega og gæta að sér,“ segir Finnur. Það er þá einna helst að vera ekki með eld, sígarettur og annað úti í náttúrunni þar sem gras og gróður er þurr.
Fréttin hefur verið uppfærð.




