Mótmæli voru skipulögð um allt Rússland í dag, sama dag og Vladímír Pútín forseti hélt árlega stefnuræðu sína. Hann minntist ekki á Navalní eða mótmælin í ræðu sinni í morgun.
Reuters-fréttastofan segir að OVD-Info, samtök sem fylgjast með mótmælum og handtökum í Rússlandi, telji 199 manns sem hafa verið handteknir á mótmælum á tugum staða í dag. Þau búast við því að sú tala fari hækkandi.
Tugir lögreglubíla voru í miðborg Moskvu og lokuðu lögreglumenn torgi þar sem mótmælendur ætluðu að koma saman og Rauða torginu með málmgirðingu. Stuðningsmenn Navalní sögðust þá ætla að koma saman á tveimur öðrum stöðum í borginni.
Nánir samverkamenn Navalní voru handteknir í morgun, þar á meðal talskona hans og einn stjórnenda vinsællar Youtube-rásar hans. Rússnesk stjórnvöld telja mótmælin ólögleg en þau leyfa takmarkað andóf gegn sér. Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, fordæmdi handtökurnar í dag.