Þetta kemur fram á vef AP fréttaveitunnar þar sem segir jafnframt að fyrirhugað sé að hefja bólusetningar með bóluefni Johnson & Johnson á ný. Heilbrigðisyfirvöld stöðvuðu notkun þess tímabundið vegna blóðtappatilfella eftir að minnst sex konur á aldrinum 18 til 48 hafi fengið blóðtappa innan við tveimur vikum eftir bólusetningu og tilkynnt var um eitt dauðsfall.
Til greina kemur að afmarka betur þann hóp sem getur fengið bóluefnið, en nú þegar hafa sjö milljónir verið bólusettar með efninu. Er því talið að um afar sjaldgæfa aukaverkun sé að ræða en enn er verið að meta hve mikil hætta sé á blóðtappa eftir bólusetningu.
Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna og ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, segist búast við því að ákvörðun liggi fyrir á föstudag. Það kæmi honum á óvart ef ekki yrði haldið áfram að bólusetja með efninu.