Hertar aðgerðir sem nú eru í gildi tóku gildi þann 25. mars með hálfs sólarhrings fyrirvara. Var tilkynnt að tíu manna samkomubann og fleiri hertar aðgerðir myndu standa í þrjár vikur eða til fimmtudagsins 15. apríl.
Reglugerðir sem heilbrigðisráðherra hefur lagt fram að tillögu sóttvarnalæknis í kórónuveirufaraldrinum skipta tugum. Nýjar reglugerðir hafa til þessa alltaf tekið gildi um leið og reglugerð í gildi rennur út. Sem hefði átt að vera á föstudaginn.
Í minnisblaðinu sem Þórólfur skilaði til ráðherra í gær, og lesa má í heild hér að neðan, leggur hann til að aðgerðirnar taki gildi 16. apríl, á föstudaginn. Svandís ákvað að flýta gildistökunni um einn dag.
„Þetta hefði átt að taka gildi á föstudaginn. En mér fannst rétt, úr því þetta eru allt ívilnandi aðgerðir, að við myndum láta nýja reglugerð taka gildi strax á fimmtudag. Þannig að það er frá og með aðfaranótt fimmtudags sem þetta gildir,“ sagði Svandís í beinni útsendingu á Vísi í hádeginu.
Að öðru leyti væri reglugerðin að fullu í samræmi við tillögur Þórólfs.
„Já, það er það. Algjörlega.“