Dem­bele hetjan á elleftu stundu og nú munar einungis einu stigi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Dembele var hetjan í kvöld.
Dembele var hetjan í kvöld. Jose Breton/Getty

Ousmane Dembele tryggði Barcelona 1-0 sigur á Real Valladolid í síðasta leik helgarinnar í spænska boltanum. Sigurmarkið kom á 90. mínútu.

Börsungar eru í harðri baráttu við Madrídarliðin, Real og Atletico, á toppnum og urðu Katalónumenn því af tveimur mikilvægum stigum í kvöld.

Í fyrri hálfleik voru Börsungar meira með boltann en það voru gestirnir sem áttu betri færi. Kenan Kodro skallaði meðal annars í slá en markalaust í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn þróaðist svipaður og sá sami. Barcelona reyndi og reyndi en Valladolid fékk færi til þess að skora.

Ronald Koeman, stjóri Börsunga, reyndi að hrista aðeins upp í sínu liði með skiptingum og þeir léku einum fleiri síðustu tíu mínúturnar eftir að Oscar Plano fékk beint rautt spjald.

Börsungar sóttu og sóttu og það var svo á 90. mínútu sem Ousmane Dembele skoraði sigurmarkið. Eftir fyrirgjöf féll boltinn fyrir Dembele sem þrumaði boltanum í netið. Lokatölur 1-0.

Atletico er á toppnum með 66 stig en Barcelona er í öðru sætinu með 65 stig. Real er í þriðja sætinu með 63 stig en 29 umferðir eru búnar.

Real og Barcelona mætast í Madríd um næstu helgi á meðan Atletico mætir Real Betis (5. sæti) á útivelli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira