Stjórn Ríkisútvarpisins hefur svarað Samherja sem sendi erindi til stjórnar þar sem þess var krafist, í kjölfar dóms siðanefndar stofnunarinnar þess efnis að Helgi Seljan fréttamaður hafi brotið siðareglur með ummælum sínum á samfélagsmiðlum. Stjórnin lýsir því yfir að það sé ekki á þeirra verksviði að hlutast til um störf fréttamanna.
Vísað er til erindisins sem dagsett er 29. mars síðastliðins í kjölfar úrskurðar siðanefndar Ríkisútvarpsins frá því í síðustu viku. Erindið var sent stjórnarmönnum og rætt á fundi stjórnarinnar 30. mars 2021.
„Málefni einstakra starfsmanna Ríkisútvarpsins er ekki til úrlausnar á borði stjórnar RÚV. Stjórnin hlutast ekki til um fréttaflutning eða aðra dagskrá RÚV, t.d. með því að leggja mat á hvaða starfsfólk sinni umfjöllun eða fréttaflutningi um tiltekin málefni. Þau verkefni eru í höndum hlutaðeigandi dagskrárstjóra, fréttastjóra sem og dagskrárgerðarfólks og fréttamanna og eru á ábyrgð útvarpsstjóra, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013.“
Þá segir að yfirlýsing Ríkisútvarpsins, sem sett var inn á vef þess þegar niðurstaða siðanefndar lá fyrir, komi frá útvarpsstjóra og varafréttastjóra vegna atriða sem snúa að fréttastofunni. Og með hliðsjón að framangreindu muni stjórn RÚV ekki aðhafast frekar í kjölfar framangreinds erindis frá 29. mars. sl.
Undir þetta skrifar Jóhanna Hreiðarsdóttir formaður stjórnar og er afrit sent Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra.