Ekki séu vísbendingar um að einhverjar nýjar jarðhræringar séu að hefjast þar, til dæmis sýni GPS-mælingar enga aflögun, en ekki sé þó hægt að útiloka að þær miklu færslur sem hafi orðið á Reykjanesskaganum undanfarinn mánuð valdi spennubreytingum á mjög stóru svæði, þar með talið í Þrengslunum.
Þetta kom fram í máli Kristínar í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hún ræddi eldgosið í Geldingadölum en líka aukna skjálftavirkni í Þrengslunum sem fjallað var um í gær.
„Við erum búin að vera að skoða þessa skjálfta og velta fyrir okkur ýmsum möguleikum. Er til dæmis hugsanlegt að vinnslan á Hellisheiði hafi eitthvað með þetta að gera? Við erum búin að útiloka það, það er engin niðurdæling á svæðinu, það virðist ekki vera sem spennubreytingar í tengslum við vinnsluna valdi þessum skjálftum þannig að við erum búin að útiloka það,“ sagði Kristín.
GPS-mælingar á svæðinu sýni enga aflögun, eins og áður var nefnt, og þá sé farið í að skoða söguna.
„Hvað vitum við um skjálftavirkni á svæðinu? Það hafa verið svipaðar hrinur þarna áður. 2018 varð mjög svipuð hrina en bara aðeins vestar þannig að ég held að við verðum að afskrifa þetta sem hluta af hefðbundinni skjálftavirkni á svæðinu. Það er samt ekkert útilokað að þessar miklu færslur sem hafa orðið á Reykjanesskaganum í tengslum við þessa gangamyndun, að þær valdi spennubreytingum á mjög stóru svæði. Þannig að það er ekki hægt að útiloka það að þær séu að valda spennubreytingum svona langt frá,“ sagði Kristín í Bítinu en hlusta má á viðtalið í heild í spilaranum hér fyrir neðan.