Staðfest var að Kolelas væri smitaður af kórónuveirunni þegar hann var lagður inn á sjúkrahús í höfuðborginni Brazzaville um helgina. Áður hafði hann sagt stuðningsmönnum sínum að hann væri mögulega smitaður af malaríu.
Í myndbandi sem Kolelas deildi með stuðningsmönnum sínum á laugardag tók hann af sér súrefnisgrímu og sagðist hann berjast fyrir lífi sínu. Hvatti hann þá jafnframt til að kjósa. Kolelas lést í sjúkraflugvél sem var á leið til Frakklands. Hann var 61 árs.
Búist var við því að Kolelas yrði í öðru sæti í kosningunum. Andlát hans ógildir ekki kosningarnar samkvæmt kosningalögum í Vestur-Kongó.
Fastlega er gert ráð fyrir að Sassou Nguesso forseti sitji áfram við völdin eftir kosningarnar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hann hefur verið í embætti frá 1979 nær sleitulaust fyrir utan fimm ára tímabil eftir kosningaósigur árið 1992.
Slökkt var á internetinu í landinu fyrir kosningarnar. Þverafríska sósíaldemókratabandalagið, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, sniðgekk kosningarnar af ótta við að þær valdi klofningi í landinu. Biskupaþing kaþólsku kirkjunnar í Vestur-Kongó lýsti jafnframt áhyggjum af gegnsæi í framkvæmd kosninganna.
Í kosningunum 2016 hlaut Sassou Nguesso 60% atkvæða gegn 15% Kolelas. Að þeim loknum voru tveir forsetaframbjóðendur handteknir.