Stefán Rafn hefur verið að glíma við meiðsli í nokkurn tíma og tók þá ákvörðun að snúa aftur heim og gera samning við uppeldisfélagið sitt Hauka.
Stefán er nú orðinn leikfær og verður með Haukum á móti Stjörnunni í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20.00 en beina útsendingin á Stöð 2 Sport hefst klukkan 19.50.
Þetta verður fyrsti leikur Stefán Rafns í íslensku deildinni síðan í desember 2012 þegar hann fór út í atvinnumennsku. Stefán Rafn skoraði 7,1 mark að meðaltali í fyrstu ellefu leikjum Hauka á 2012-13 tímabilinu eða áður en hann fór út.
Stefán Rafn spilaði sem atvinnumaður í átta ár með Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi (2013-16), Aalborg Håndbold í Danmörku (2016-17) og svo síðast Pick Szeged í Ungverjalandi frá 2017 til 2020.
Stefán Rafn hefur náð að verða landsmeistari með öllum félögum sem hann hefur spilað með: Haukum árið 2010, Rhein-Neckar Löwen árið 2016, Aalborg Håndbold árið 2017 og svo með Pick Szeged árið 2018.
Haukarnir endurheimta líka Geir Guðmundsson í kvöld en Geir hefur ekki spilað síðan að hann fékk mjög slæmt högg í leik á móti ÍR á dögunum.
Haukar verða hins vegar án tveggja lykilmanna í leiknum. Hornamaðurinn Orri Freyr Þorkelsson er meiddur á tá og Darri Aronsson er meiddur á hné. Darri er samt á góðum batavegi og getur vonandi komið aftur inn í byrjun apríl.