Innlent

Veikindadögum fjölgað frá því í janúar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Svo virðist sem að minni samkomutakmarkanir hafi í för með sér að umgangspestir dreifast betur. 
Svo virðist sem að minni samkomutakmarkanir hafi í för með sér að umgangspestir dreifast betur.  Foto: Vilhelm Gunnarsson

Veikindadagar barna á leikskólum Reykjavíkur voru meira en helmingi færri í janúar 2021 miðað við í janúar 2020. Hins vegar eru merki um að veikindadögunum sé að fjölga á ný.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu til skóla- og frístundasviðs borgarinnar má sjá að veikindadögum barnanna fækkaði verulega á milli ára. Þannig voru skráðir veikindadagar barna á leikskólunum 3.153 í janúar í ár en alls voru 1.508 börn veik. Í janúar fyrra voru veikindadagarnir 6.996 en fjöldi barna sem voru veik var 2.601.

Ákveðnar vísbendingar eru nú um að umgangspestum sé farið að fjölga á ný. Það sem af er febrúar hafa verið skráðir töluvert fleiri veikindadagar en í janúar eða 4.715 veikindadagar hjá 2.046 börnum. Ekki er hægt að bera þessar tölur saman við tölurnar frá því í febrúar í fyrra þar sem þá voru verkföll og börnin komust mörg hver lítið í leikskólann. 

Alma Möller sagði á upplýsingafundi fyrir rúmri viku að minna hefði verið skrifað upp á sýkalyf á síðasta ári. „Mest hjá börnum en heilt yfir um sextán prósent og enn meira ef litið er til meðaltals fimm ára þar á undan.“

Leikskólabörn í Reykjavík eru um 6.500. Meðalveikindadagur á barn skráð með veikindafjarvist var í nú í janúar 2,09 en 2,7 í janúar 2020. Í febrúar voru þeir 2,3 á barn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×