Skoðun

Brjótum ísinn

Alma Hafsteinsdóttir skrifar

Samtök áhugafólks um spilafíkn sendu þann 4. febrúar síðastliðinn, þegar átakið lokum.is fór af stað, deildum Rauða Krossins á Íslandi (RKÍ) og björgunarsveitum innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar (SL) erindi þar sem óskað var eftir svörum stjórna deildanna og sveitanna um viðhorf þeirra til spilakassareksturs þessara samtaka. Við gerum okkur grein fyrir að almennir félgar hafa ekki beina aðkomu að ákvörðunum stjórnar en RKÍ og SL væru samt ekkert án sjálfboðaliða.

Að gerast sjálfboðaliði ber vitni um gott og fallegt hjartalag. Að bjóða fram starfskrafta sína í þágu samfélagsins eins og þið gerið er aðdáunarvert og alls ekki sjálfgefið. Engu að síður er um að ræða ótrúlega mikinn fjölda fólks sem bæði fórnar tíma sínum og brennur fyrir því að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Hvernig samtökin fjármagna sig hlýtur að vera fólki sem leggur starfseminni lið hjartans mál.

Spilakassarrekstur er fjármögnunaraðferð sem enginn vill ræða. Það má ekki minnast á hann á fundum, það má ekki tala um hann opinberlega. Við viljum brjóta ísinn með þessa þöggun.

Svör eru farin að berast og gleðjumst við yfir jákvæðum viðbrögðum og birtum hér dæmi um slík viðbrögð ásamt spurningum okkar:

  • Er stjórnin samþykk því að Slysavarnafélagið Landsbjörg og björgunarsveitir landsins séu fjármagnaðar með rekstri spilakassa?
    • „Nei, teljum það vera skaðlegt fyrir ímynd SL vegna almenningsálits. Í staðinn ætti SL að reyna að fjölga bakvörðum.“
  • Telur stjórnin að rekstur spilakassa samræmist gildum og reglum björgunarsveitarinnar?
    • „Nei, við teljum að það sé siðferðislega rangt að vera að þiggja peninga af einstaklingum sem eru haldnir spilafíkn.“
  • Hver eru viðbrögð stjórnarinnar við því að SÁÁ hefur nú dregið sig út úr rekstri spilakassa, þar sem það samræmist ekki gildum SÁÁ?
    • „Stjórnin fagnar því að SÁÁ hafi tekið þessa ákvörðun og hvetur SL til að gera slíkt hið sama.“

Það var aldrei ætlunin að hver einstaklingur setti jafn mikla peninga í spilakassana og gerst hefur og að kassarnir yrðu jafn ávanabindandi og þeir eru í dag. Því síður stóð til að jafn fámennur hópur og raun ber vitni stæði undir fjármögnuninni.

Það þarf kjark og þor til að taka afstöðu gegn spilakassarekstri Rauða krossins á Íslandi og Slysavarnafélagins Landsbjargar. Við fögnum því að umræðan er farin af stað og menn eru farnir að þora að lýsa skoðunum sínum.

Höfundur er formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn sem eru í forsvari fyrir lokum.is.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×