Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari í málinu, lagði á mánudag fram framhaldsákæru í máli héraðssaksóknara gegn bræðrunum Ágústi Arnari og Einari Ágústssonum. Þeir sæta ákæru fyrir fjársvik og peningaþvætti í gegnum trúfélagið Zuism. Trúfélagið var á tímabili eitt það fjölmennasta á landinu og hefur þegið tugi milljóna króna úr ríkissjóði í formi sóknargjalda.
Auk bræðranna er trúfélagið Zuism, einkahlutafélagið EAF sem Einar er í forsvari fyrir og bandaríska skúffufélagið Threescore LLC í Delaware ákært í málinu.

Í ákæru héraðssaksóknara eru bræðurnir sakaðir um að hafa valdið íslenska ríkinu verulegri fjártjónshættu og fjártóni í reynd með því að styrkja og hagnýta sér ranga hugmynd embættismanna að trúfélagið Zuism uppfyllti skilyrði fyrir skráningu trúfélags. Á þeim forsendum hafi félagið fengið rúmlega 84,7 milljónir króna í sóknargjöld frá ríkinu.
Af þeim fjármunum voru aðeins 1,27 milljónir króna eftir á bankareikningi Zuism 7. maí árið 2019. Héraðssaksóknari krefst upptöku á hátt í fimmtíu milljónum króna sem liggja hjá félögum Einars og Zuism. Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra hefur haldið eftir sóknargjöldum til Zuism í rúmlega tvö ár vegna óvissu um hvort að félagið uppfylli skilyrði laga um trúfélög.
Frávísunarkrafa verjenda bræðranna var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudagsmorgun. Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari hefur nú fjórar vikur til að kveða upp úrskurð um kröfu verjendanna. Þeir höfðu á orði við þingfestingu málsins að ákæran væri óskýr og reyndu að færa rök fyrir því við fyrirtöku málsins á mánudag.
Í framhaldsákærunni kemur fram að héraðssaksóknari hafi fengið upplýsingar frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu um tvo reikninga til viðbótar sem skráðir eru á Einar hjá Interactive Brokers. Þótt reikningarnir séu skráðir hjá Interactive Brokers í Bretlandi eru eignirnar á þeim endanlega varslaðar hjá móðurfélaginu í Bandaríkjunum.
Hafa eignir á báðum reikningum Einars verið kyrsettar til bráðabirgða eins og aðrir reikningar hans.