Sú fyrsta, Mývatn, lenti um klukkan tíu mínútur yfir eitt og sú seinni, Búlandstindur, um fimmtán mínútum síðar. Vélarnar hafa að undanförnu verið í geymslu í bænum Lledia á Spáni. Það voru þeir Haraldur Baldursson flugstjóri og Kári Kárason flugmaður sem flugu Mývatni heim, en Þórarinn Hjálmarsson og Eiríkur Haraldsson flugu Búlandstindi.

Í upphafi þessa mánaðar var greint frá því að endurþjálfun flugmanna Icelandair á MAX-vélarnar stæði yfir, eftir að Flugöryggisstofnun Evrópu aflétti hátt í tveggja ára flugbanni sem sett var á vélarnar í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa sem rekja mátti til galla í stýrikerfi þeirra.
Gallinn hefur nú verið lagfærður og vonast er til að vélarnar geti hafið sig til lofts á nýjan leik á vormánuðum.