Elín Margrét Böðvarsdóttir, fréttamaður okkar í Danmörku náði tali af Michael Kjeldgaard, yfirlögregluþjóni hjá Lögreglunni á Austur-Jótlandi, sem fer með rannsókn málsins.
Ætla má að hugur allra sem fylgjast með málinu og þekkja til sé hjá börnunum tveimur sem hafa nú misst móður sína. Kjeldgaard var spurður hvar börnin væru og hver gætti þeirra; hvort þau væru hjá ættingjum eða barnaverndaryfirvöldum.
„Ég get staðfest að börnin tvö eru í góðum höndum hjá ættingjum,“ sagði Kjeldgaard og bætti við að lögreglan væri í miklum og góðum samskiptum við fjölskyldu Freyju.
Kjeldgaard fékkst ekki til að segja hvort börnin hafi verið heima við þegar morðið var framið. Nánar verður rætt við Kjeldgaard um gang rannsóknarinnar í kvöldfréttum Stöðvar 2.