Hættustig hefur verið í gildi á Seyðisfirði frá 20. desember síðastliðnum en þá var almannavarnastig lækkað úr neyðarstigi. Var það virkjað eftir stóru skriðuna sem féll þann 18. desember.
Að sögn lögreglu hefur hreinsun á áhrifasvæðum skriðufalla sem féllu 15. til 18. desember gengið vel síðustu vikur en samhliða hreinsuninni hefur verið unnið að gerð bráðavarna. Er þeirri vinnu lokið á nokkrum svæðum.
Aflétta rýmingu undir Múlanum
Áfram er fylgst grannt með frekari skriðuhættu og telst hún ekki yfirvofandi til skamms tíma litið. Vegna þessa hefur verið ákveðið að aflétta rýmingu á þeim húsum sem standa undir Múlanum sem hafa verið rýmd frá 18. desember. Um er að ræða hús við Hafnargötu nr. 10, 11, 12, 14, 15, 16b og 18c, en búið er að kynna íbúum þessa ákvörðun.
Fram kemur í tilkynningu almannavarna að nú sé unnið að frumathugun vegna varanlegra varna fyrir byggðina og endurskoðun á hættumati vegna skriðufalla. Unnið er að sérstöku mati fyrir svæðið utan við stóru skriðuna sem féll 18. desember við Stöðvarlæk og má búast við niðurstöðum á næstu dögum. Ekki er enn sem komið er heimilt að dvelja í þeim íbúðarhúsum samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.
Gerð reitaskipts rýmingakorts vegna hættu á skriðuföllum er sögð vera á lokastigum. Áfram má búast við að gripið verður til rýminga á næstu mánuðum ef veðurskilyrði verða óhagstæð eða mikil rigning í veðurspám.
Fréttin hefur verið uppfærð.