„Ég er mjög svekktur. Við gáfum allt í leikinn og ég er ánægður með baráttuna og vörnina. Það var synd að sóknin skildi ekki fylgja með,“ sagði Gísli við Vísi eftir leik.
„Þetta er sárt. Þessi leikur var í járnum og hefði getað fallið hvoru megin sem var.“
Varnarleikur íslenska liðsins var til fyrirmyndar og ekkert undan honum að kvarta.
„Vörnin var frábær og við fengum bara tuttugu mörk. Það er leiðinlegt að það skildi ekki duga til sigurs,“ sagði Gísli.
Nikola Portner, markvörður Sviss, átti góðan leik og varði sautján skot, eða tæplega helming þeirra skota sem hann fékk á sig.
„Við komumst í góðar stöður en ég veit ekki hversu mörg dauðafæri fóru í súginn. Við þurfum að fara yfir leikinn. Oft á tíðum voru það dauðafærin sem fóru með þetta,“ sagði Gísli.
„Það komu kaflar þar sem við gerðum vel en svo aðrir þar sem þetta gekk ekki eins vel.“