Í þættinum Um land allt, þar sem fjallmönnum á Landmannaafrétti var fylgt í haust, var þeirri spurningu velt upp hversu rótgróinn þáttur fjárleitir á hálendinu væri í þjóðmenningu Íslendinga.

„Ég hugsa að það láti nokkuð nærri að menn hafi farið að reka fé á fjall í kjölfar landnáms eða að minnsta kosti skömmu eftir að landið byggðist. Upprekstrarrétturinn byggist því á fornri venju,“ svarar Þorsteinn Magnússon, framkvæmdastjóri Óbyggðanefndar, en nefndin var sett á laggirnar með lögum um þjóðlendur.

Aðalhlutverk hennar er að úrskurða um þjóðlendur en jafnframt hefur fylgt starfi hennar umfangsmikil rannsóknarvinna og gagnasöfnun, einkum í samvinnu við sérfræðinga Þjóðskjalasafns Íslands. Þannig segir Þorsteinn algengt að í málum fyrir Óbyggðanefnd sé notast við skjöl allt aftur til þrettándu eða jafnvel tólftu aldar.
„Elsta skjal sem varðveitt er í frumriti á íslensku er máldagi Reykholtskirkju í Borgarfirði frá tólftu öld. Hann kom mjög við sögu við úrlausn mála í Borgarfirði,“ segir Þorsteinn.
„Bæði Grágás og Jónsbók geyma ákvæði um afrétti. Ég tel að af því megi draga þá ályktun að þegar þær voru ritaðar var notkun afrétta til sumarbeitar fyrir búfénað orðin nokkuð föst í sessi.“
Þorsteinn segir þó heimildir ekki liggja fyrir um nákvæmlega hvenær byrjað var að nýta afrétti, enda hafi það ekki verið fyrr en á tólftu öld, um tveimur öldum eftir að landnámi lauk, sem farið var að rita heimildir hér á landi.
„Ákvæði Grágásar um afrétti benda þó til þess að afréttanotkun hafi verið hafin þegar á tíma þjóðveldisins. Grágás mun hafa verið rituð á þrettándu öld, eftir að lögin höfðu áður verið varðveitt í munnlegri geymd,“ segir Þorsteinn.