Erlent

Bretar prufukeyra smitrakningarforrit á Wight-eyju

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Matt Hancock, fyrir miðju, á blaðamannafundi dagsins.
Matt Hancock, fyrir miðju, á blaðamannafundi dagsins. Ap/Andrew Parsons

Bretar munu prófa sérstakt smitrakningarforrit til þess að fylgjast með útbreiðslu kórónuveirunnar á Wight-eyju undan ströndum Bretlands. Þá er unnið að því að manna sérstakt smitrakningarteymi.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, tilkynnti þetta í dag og sagði hann íbúa Wight-eyju æsta í að verða eins konar tilraunadýr í tengslum við forritið. Heilbrigðisstarfsmenn á eyjunni muni fyrst fá boð um að hala forritinu í símann en á fimmtudaginn munu aðrir íbúar eyjunnar, um 150 þúsund talsins, fá sambærilegt boð.

Þeir sem telja sig finna fyrir einkennum Covid-19 sjúkdómsins eru beðnir um að láta forritið vita og fá viðkomandi síðan boð um koma í prófun fyrir kórónuveiru. Þá á forritið einnig að láta notendur vita komist þeir í tæri við einhvern sem greinst hefur með veiruna.

Samhliða forritinu er ætlunin að koma upp smitrakningarteymi sem mun reyna að komast að því hvernig og hvar veiran sé að breiðast út.

Alls hafa 28,734 látist af völdum Covid-19 í Bretlandi samkvæmt opinberum tölum sem birtar voru í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×