Erlent

Heldur upp á hundrað ára afmæli og hefur safnað tæpum sex milljörðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Moore var gerður að heiðurs-ofursta í morgun.
Moore var gerður að heiðurs-ofursta í morgun. Vísir/Varnarmálaráðuneyti Bretlands

Tom Moore, ein stærsta hvunndagshetja Breta um þessar mundir, heldur upp á hundrað ára afmæli sitt í dag. Moore hefur nú safnað tæpum sex milljörðum króna til styrktar Heilbrigðisstofnunar Bretlands (NHS) og segir gjafmildi almennings vera yfirþyrmandi. Í afmælisgjöf fékk Moore, sem var kafteinn í breska hernum og þjónaði í seinni heimsstyrjöldinni, heiðurstitilinn ofursti og var herflugvélum frá stríðinu flogið yfir heimili hans.

Moore ákvað í byrjun mánaðarins að halda upp á hundrað ára afmæli sitt með því að ganga hundrað ferðir yfir lóð sína. Í leiðinni ætlaði hann að safna þúsund pundum fyrir NHS. Sú upphæð safnaðist hratt og var stefnan sett næst sett á 500 þúsund pund.

Þegar þetta er skrifað, skömmu fyrir hádegi, hafði Moore safnað 31,166.041 pundum. Það samsvarar 5,7 milljörðum króna. Söfnuninni lýkur á miðnætti í kvöld.

Moore segist mjög þakklátur fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið og segist hafa öðlast nýjan tilgang.

„Fólk er alltaf að segja að það sem ég hef gert sé ótrúlegt. Það er hins vegar það sem þið hafið gert fyrir mig sem er ótrúlegt,“ er haft eftir Moore í frétt Guardian.

Tom Moore

Hann kláraði hundrað ferðirnar um miðjan mánuðinn en hefur haldið áfram að ganga. Eftir afmælisveisluna í dag segist Moore ætla að hvíla fæturna. Hann segist þó ekki hættur að reyna að hjálpa fólki og segist ætla að finna nýjar leiðir fljótt.

Moore hefur samkvæmt Sky News fengið meira en 140 þúsund afmæliskort og þar á meðal eru kveðjur frá konungsfjölskyldu Bretlands, Boris Johnson forsætisráðherra og mörgum öðrum.

Hér að neðan má sjá hluta úr sérstakri útsendingu BBC frá afmælisveislu Moore í morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×