Heimir Guðjónsson, sem tók við liði Vals í vetur af Ólafi Jóhannessyni, hefur áhuga á því að styrkja Val. Þá horfir hann helst í fremstu stöður vallarins.
Heimir var gestur Guðmundar Benediktssonar í Sportið í kvöld sem var sýnt á Stöð 2 Sport í gærkvöldi. Þar var rætt um Val, kórónuveiruna og tímabilið sem er framundan.
Guðmundur spurði hvort að Heimir hefði áhuga á því að styrkja liðið.
„Það er allt lokað núna. Það er ekkert hægt að gera. En höfum við hug á því að styrkja liðið? Já við höfum hug á að gera það og fá einn leikmann inn,“ sagði Heimir sem greindi frá því í hvaða stöðu hann myndi sjá þennan leikmann fyrir sér í.
„Ef þú lítur á þennan hóp sem þú varst með inn á töflu áðan, þá vantar breidd fram á við. Patrick Pedersen er eina náttúrlega nían í hópnum.“
Sigurður Egill hefur verið að leysa stöðuna sem fremsti maður og Heimir er ánægður með hvernig hann hefur leyst þá stöðu.
„Hann hefur staðið sig vel. Siggi er búinn að spila á vængnum öll þessi ár sem hann hefur spilað með Val. Ég man ekki eftir því að hann hafi spilað neina aðra stöðu og auðvitað tekur það tíma að pússa menn inn í nýjar stöður. Hann hefur gert miðað við það.“