Tugir leigjenda hjá leigufélaginu Þórsgarði fengu gleðifréttir í gærþegar þeir fengu símtal þess efnis að leigufélagið hygðist veita leigjendum sínum fría leigu í tvo mánuði. Eygló Agnarsdóttir, framkvæmdarstjóri félagsins, varði deginum í að hringja í leigjendur og tilkynna þeim þetta.
„Ég er búin að eyða parti úr deginum í það að hringja í alla okkar leigjendur, eða þá sem ég hef náð í, til að tilkynna þetta og það er bara ótrúlegt þakklæti,“ segir hún í Reykjavík síðdegis í gær um viðbrögð fólks við fréttunum.
„Við viljum koma til móts við okkar leigjendur og gera það sem við getum gert og við ákváðum að gefa öllum okkar leigjendum fría leigu í tvo mánuði. Við erum með fjöldann allan af leiguhúsnæði, bæði íbúðir og skrifstofuhúsnæði og fleira, þannig að þetta á bara við um alla okkar leigjendur.“
Hún segir ákvörðunina hafa verið auðvelda, enda miklir óvissutímar og félagið hafi viljað leggja sitt af mörkum „Við viljum bara hugsa vel um fólkið okkar og eins og ástandið er í dag og það þarf kannski ekkert að minnast meira á það. Það eru allir hræddir og kvíðnir í þessu ástandi og við ákváðum bara að gera það sem við gátum til að hjálpa okkar fólki.
Er ekki gaman að hringja út með svona símtal á þessum tímum?
„Jú, mér líður eiginlega bara eins og jólasveini og margir trúa þessu bara ekki, spyrja hvort sé kominn 1. apríl. Þetta gefur manni mjög mikið að geta gert svona,“ segir Eygló.
Hún segist ekki hafa heyrt af því að fleiri leigufélög séu að gera það sama en vonar að þetta verði öðrum félögum til eftirbreytni. „Ég vona bara að það komi fleiri á eftir sem hafa getu til að gera eitthvað svona álíka fyrir sitt fólk þannig ég vona að þetta geti látið eitthvað gott af sér leiða.“
„Ég efast ekki um það að þetta komi sér til góðs fyrir fólkið á þessum tímum.