Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var á meðal þeirra ráðherra sem héldu austur með flugi í dag. Þegar á Seyðisfjörð var komið sagði hún átakanlegt að sjá afleiðingar hamfaranna. Eins sagði hún gott að fá að hitta heimamenn, sem mikill hugur væri í.
„Nú munum við fara í það. Fara í hreinsunarstarf, endurbyggingu og komast yfir þetta,“ sagði Katrín fyrr í dag.
Ljósmyndari Vísis var á Seyðisfirði og fylgdi ráðherrum meðal annars eftir þegar þeir virtu fyrir sér hamfarasvæðið. Myndir frá Seyðisfirði í dag má sjá hér að neðan.








