„Ég bý í húsinu fyrir ofan Breiðablik sem var. Svo er ég staddur þarna út frá þar sem stóra skriðan kemur öll og þá kemur allt í einu hringing úr húsinu yfir í næsta hús. Við hlaupum yfir í næsta hús og ég er varla búinn að vera þar nema kannski í tuttugu sekúndur, þá er bara öskrað á okkur: „ÚT!“
Ég hleyp af stað og öskra á næstu manneskju, vinkonu mína Siggu Boston, og ég bara öskraði „komdu til baka!“ mér leist ekkert á að hún hlypi þarna niður eftir. En ég stoppa bara og horfi á þetta gerast. Bara sitt hvoru megin,“ segir Tóti.
Þurfti að vaða aurskriðuna til að komast í öruggt skjól
Hann segir að á því augnabliki hafi runnið upp fyrir honum að hann hafi lagt frá sér köttinn sem hann var að passa inn í húsinu.
„Og ég hljóp bara til baka og náði í hann. Mér var alveg sama. Ég sá ekki neitt hvað ég græddi á því að hlaupa. Þessar skriður núna hafa verið að taka svo miklar beygjur, alveg 90 gráðu beygjur.“
Hann varð vitni að því þegar skriðan féll á björgunarsveitarhúsið og sá hann vörubíl sem stóð uppi á götu fjúka á húsið.
„Já, ég sá vörubílinn fjúka á björgunarsveitarhúsið. Svo sá ég aumingja björgunarsveitarmennina alveg á harðahlaupum. Þetta var alveg hræðilegt að horfa á.“
„Svo náði ég í köttinn og ég fór af stað þangað niður eftir og hitti annan björgunarsveitarmann og við földum okkur á bak við hús. Héldum svo áfram niður fyrir Gamla ríkið eins og við köllum það, beint fyrir ofan smábátahöfnina. Svo var aðeins stoppað þar og svo þurftum við að vaða drulluna upp í hné og svo bara niður í ferjuhús,“ segir Tóti.
Þeir þurftu að ganga yfir skriðuna sem var nýfallin og Tóti segir að það hafi ekki verið hættulaust.
„Gusurnar gengu þarna ennþá. Þetta er svo óraunverulegt fyrir manni. En þetta verður ekki raunverulegt fyrir manni fyrr en maður sér þessa hræðilegu hluti þegar maður kemur aftur heim,“ segir Tóti.
Lenti líka í Flateyrarslysinu
Tóti segist afskaplega þreyttur eftir átökin. Hann hafi enn ekki fengið áfallið sem hann veit að mun koma.
„Ég á alveg eftir að fá áfallahjálp, eftir það og eftir Flateyrarslysið, þá var ég fluttur vestur. Þá lenti ég í því. Svo þetta og eins og ég segi þá er þetta ekkert komið. Þetta er ekkert komið ennþá það sem gerðist í gær. Ég veit það kemur. Ég á eftir að fá einhvers konar taugaáfall. Held ég,“ segir Tóti.

Hann segist kvíða mikið fyrir því að snúa aftur til Seyðisfjarðar
„Mig kvíðir fyrir því. Ég er svo hræddur um að maður fái þá áfallið. Þetta er alveg svakalegt. Ég er búinn að sjá eina og eina mynd og jú auðvitað kvíðir maður fyrir því að sjá þetta. Þetta eru allt staðir sem maður elskaði, öll þessi hús eru farin. Það er bara allt farið þarna fyrir utan.“