Veðurstofan, Vegagerðin og Fjarðabyggð hafa verið við mælingar og athuganir við Oddsskarðsveg ofan við Eskifjörð í dag. Í tilkynningunni segir að vinna þurfi úr gögnum og gera frekari mælingar til að meta stöðuna. Því þyki ekki óhætt að aflétta rýmingu að svo stöddu, en staðan verði endurmetin eftir hádegi á morgun.
„Ef íbúar á rýmdum svæðum þurfa að ná í nauðsynjar á heimili sín eru þeir vinsamlegast beðnir um að gefa sig fram áður í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Eskifjarðarkirkju áður og fá þá fylgd inn á svæðið,“ segir þá í tilkynningunni.
Fjöldahjálparstöð verður opin í Eskifjarðarkirkju frá klukkan 16 í dag til klukkan 21. Hún verður svo opnuð aftur klukkan 9 í fyrramálið og opin til hádegis, þegar staðan verður endurmetin.
Staðan á Seyðisfirði metin í fyrramálið
Þá segir í annarri tilkynningu að enn sé unnið að stöðumati á innviðum, rafmagni, vatsveitu, fráveitu og fleiru á Seyðisfirði. Eins sé Veðurstofan að meta hættu á frekari skriðuföllum.
Því verði staða rýmingar metin að nýju í fyrramálið. Því er rýming á Seyðisfirði áfram í gildi, líkt og á Eskifirði.