Rússar nota eigið bóluefni, Sputnik V, sem yfirvöld segja virka í 95% tilvika. Þá vilja þau meina að engar alvarlegar aukaverkanir fylgi notkun efnisins þrátt fyrir að prófanir á því fari enn fram.
Þúsundir hafa þegar skráð sig á lista til að verða bólusettir nú um helgina en óljóst er hversu mikil framleiðslugeta Rússa er.
Borgarstjóri Moskvu, Sergei Sobyanin, tilkynnti um bólusetninguna fyrr í vikunni og sagði hann að bólusetningin stæði fólki sem ynni í heilbrigðisþjónustu, kennslu, og félagsráðgjöf, til boða. Hægt væri að bjóða fleirum um á bólusetningu þegar búið væri að framleiða nógu marga skammta af lyfinu.
Viðbrögð almennings við bóluefninu hafa verið misjöfn. Rétt eftir að bóluefnið var samþykkt til notkunar í ágúst sýndi niðurstaða könnunar sem meira en þrjú þúsund læknar tóku þátt í að meirihluti þeirra vildi ekki láta sprauta sig með efninu.
Hingað til hafa rúmlega 2,4 milljónir Rússa smitast af kórónuveirunni og tæplega 43 þúsund látist af völdum hennar. Í gær greindust 28.782 smitaðir af veirunni, og er það metfjöldi smita á einum degi. Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins er heilbrigðiskerfið að þrotum komið og sérstaklega í Moskvu, sem er hringamiðja faraldursins í Rússlandi.