Viðskipti innlent

Íslensk ferðaþjónusta í heild hlaut ferðaþjónustuverðlaun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Forsetahjónin afhentu verðlaunin á myndbandsformi enda enginn einn til að taka við verðlaununum. Verðlaunin eru til allra sem starfa í ferðaþjónustu á Íslandi.
Forsetahjónin afhentu verðlaunin á myndbandsformi enda enginn einn til að taka við verðlaununum. Verðlaunin eru til allra sem starfa í ferðaþjónustu á Íslandi.

Íslensk ferðaþjónusta hlýtur Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2020. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, forsetafrú og velgjörðarsendiherra ferðamennsku og sjálfbærrar þróunar hjá Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNWTO) tilkynntu um verðlaunin í myndbandi sem Samtök ferðaþjónustunnar gáfu út í dag.

Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar eru veitt fyrir athyglisverðar nýjungar í ferðaþjónustu og er ætlað að hvetja frumkvöðla og fyrirtæki í ferðaþjónustu innan samtakanna til nýsköpunar. SAF afhenda verðlaunin á afmælisdegi samtakanna, 11. nóvember ár hvert, en þetta er í sautjánda skipti sem verðlaunin eru afhent.

„Öllum er ljós sú erfiða staða sem ferðaþjónusta er í vegna heimsfaraldurs Covid-19. Staðan er vissulega erfið en framtíðarhorfur í ferðaþjónustu hér á landi eru mjög bjartar til lengri tíma. Á liðnu sumri upplifðu Íslendingar á ferðum sínum um landið þá gríðarlegu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustu um land allt. Í stað þess að veita einu fyrirtæki verðlaunin í ár hlýtur atvinnugreinin í heild sinni - ferðaþjónusta á Íslandi - Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2020,“ segir í tilkynningu frá SAF.

Með því að veita íslenskri ferðaþjónustu verðlaunin vilji SAF leggja áherslu á þá miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í greininni á umliðnum árum og hrósa þeim hundruðum ferðaþjónustufyrirtækja og þúsundum starfsmanna þeirra um land allt fyrir vel unnin störf í ferðaþjónustu. 

„Gleymum því ekki að ferðaþjónustan geymir óþrjótandi tækifæri, þar sem nýsköpun og hugvit varða leiðina að farsælli framtíð.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×