Erlent

Varar við því að tvöfalt fleiri geti dáið í vetur en í vor

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynnti hertar sóttvarnaaðgerðir um helgina.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynnti hertar sóttvarnaaðgerðir um helgina. Getty/Alberto Pezzali-Pool/

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, varar við því að dauðsföll í landinu vegna Covid-19 geti orðið tvöfalt fleiri í vetur en þau voru í vor þegar fyrsta bylgja faraldursins gekk yfir.

Frá þessu greinir BBC og vísar í ræðu sem Johnson mun halda í breska þinginu síðar í dag. Í ræðunni mun Johnson einnig segja að yfirvöld hafi ekki átt neinna annarra kosta völ en að setja á fjögurra vikna útgöngubann í Englandi sem tekur gildi síðar í þessari viku.

Þá mun hann einnig segja að það hafi verið rétt ákvörðun að reyna allar aðrar mögulegar leiðir til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar áður en gripið var til allsherjar útgöngubanns.

Johnson kynnti hertar sóttvarnaaðgerðir í ávarpi til þjóðarinnar á laugardag. Á meðal þeirra ráðstafanna sem gripið er til er lokun kráa, veitingastaða, líkamsræktarstöðva, verslana sem selja ekki nauðsynjavörur og guðshúsa.

Verkamannaflokkurinn hefur gagnrýnt að útgöngubannið taki ekki gildi fyrr en á fimmtudag en styður aðgerðirnar að öðru leyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×