Erlent

Sögulegur sigur Ardern í þingkosningum á Nýja Sjálandi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, greiddi atkvæði daginn sem opnað var fyrir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, þann 3. október
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, greiddi atkvæði daginn sem opnað var fyrir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, þann 3. október Vísir/EPA

Verkamannaflokkur Jacindu Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, fór með yfirburðasigur í þingkosningum sem fram fóru þar í landi í nótt. Nú þegar stór hluti atkvæða hefur verið talinn hlýtur flokkur Ardern um 49% atkvæða. Það tryggir flokknum 64 þingsæti sem ætti að duga til að mynda hreinan meirihluta í nýsjálenska þinginu. Þetta hefur engum stjórnmálaflokki tekist þar í landi síðan nýtt kosningakerfi var tekið í gagnið árið 1996.

Búist var við harðri baráttu milli Verkamannaflokks Ardern og Íhaldsmanna í Þjóðarflokknum. Skoðanakannanir í aðdraganda kosninganna bentu þó til þess að kjósendur á Nýja Sjálandi myndu veita Ardern, sem nýtur töluverðra vinsælda, umboð til að stýra landinu næsta kjörtímabilið og sú varð raunin.

Þjóðarflokkurinn hlýtur 27% af töldum atkvæðum og hefur játað ósigur í kosningunum. Kosningarnar áttu upprunalega að fara fram í september en var frestað um mánuð vegna kórónuveirufaraldursins.

Kjörstaðir voru opnaðir klukkan níu að morgni að staðartíma og lokuðu klukkan sjö að kvöldi, en Nýja Sjáland er ellefu klukkustundum á undan íslensku klukkunni. Yfir milljón kjósendur höfðu þegar greitt atkvæði utan kjörfundar en utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst þann 3. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×