Erlent

Þurfa að koma með eigin penna til að kjósa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kjósendur í Litháen þurfa að mæta með penna til þessa að geta gert þetta á morgun.
Kjósendur í Litháen þurfa að mæta með penna til þessa að geta gert þetta á morgun. Getty

Litháar ganga til þingkosninga á morgun í kosningum sem litið er á sem mælikvarða á það hvort íbúar landsins séu ánægðir með aðgerðir ríkisstjórnar Saulius Skvernelis forsætisráðherra gegn kórónuveirufaraldrinum eða ekki.

Kjósendur þurfa að mæta með sína eigin penna á kjörstaði til þess að merkja atkvæðaseðlana. Um er að ræða sóttvarnarráðstöfun auk þess sem að boðið hefur verið upp á sambærilegar ráðstafanir og gerðar voru hér á landi í tengslum við forsetakosningarnar í sumar, til þess að tryggja að þeir sem eru sýktir eða í sóttkví geti kosið.

Þá hafa kjörstjórnarfulltrúar klæddir sóttvarnargöllum heimsótt suma af þá 32 þúsund íbúum landsins sem eru í sjálfskipaðri sóttkví til þess að sækja kjörseðla heim til þeirra.

Flokkur Skvernelis, Bandalag bænda og græningja, leiðir skoðanakannanir ásamt Föðurlandsbandalaginu. Báðir flokkar mælast með fimmtán prósent fylgi en Föðurlandsbandalagið er í stjórnarandstöðu. Efnahagur Litháens hefur gengið betur en flestra ríkja Evrópusambandsins að undanförnu þrátt fyrir faraldurinn og er það talið geta ýtt flokki Skvernelis yfir endalínuna.

Skvernelis er forsætisráðherra.Vísir/EPA

Seðlabanki Litháens telur það skýrast af því að samkomutakmarkanir voru tiltölulega skammlífar, ríkið hafi veitt landsmönnum töluverðan stuðning og að helstu viðskiptalönd hafi einnig komið ágætlega út úr faraldrinum.

Í frétt Euronews um kosningarnar segir að stuðning við flokk Skvernelis megi rekja til þess að töluverður hluti af tveggja milljarða evra björgunarpakka ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins hafi endað á einn eða annan hátt í vasa kjósenda. Þar segir einnig að áður en faraldurinn skall á hafi flokkur Skvernelis verið í vandræðum, en viðbrögð ríkisstjórnarinnar við faraldrinum hafi snúið kjósendum á sveif með Bandalagi bænda og græningja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×