Það var heldur ófrýnilegt skordýrið sem starfsmaður Barnaskólans á Stokkseyri og Eyrarbakka veiddi upp úr spínatplöntu í dag. Þriggja sentimetra langt skordýr blasti við.
Líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd er skordýrið nokkuð vel vörnum búið en svo virðist sem að hvítir þyrnar standi út frá búki þess. Guðrún Rakel Svandísardóttir, starfsmaður skólans birti mynd af skordýrinu í Facebook-hópnum Skordýr og nytjadýr á Íslandi, þar sem fjörlegar umræður hafa skapast um hvers kyns skordýr sé að ræða.
Engum hefur þó tekist að bera óggjandi kennsl á skordýrið en nokkrir sem skrifa athugasemdir við færsluna telja mögulegt að um eitrað skordýr sé að ræða. Í samtali við Vísi segir Guðrún Rakel að gott hafi verið að fá þessar ábendingu, því að þá hafi starfsmenn skólans vitað að betra væri að fara að öllu með gát í samskiptum við skordýrið.
Segir að hún að skordýrið sé um þriggja sentrimetra langt en það fannst í spínatinu sem kom með matarsendingu í mötuneyti skólans.
Ekki mikið líf var í skordýrinu fyrst um sinn en það braggaðist eftir því sem leið á daginn að sögn Guðrúnar Rakelar og er það nú í ágætu yfirlæti á kaffistofu skólans. Á morgun ætla starfsmenn skólans að senda fyrirspurn til Náttúrufræðistofnunar Íslands í von um að hægt verði að finna svör við því um hvaða skordýr sé að ræða.